Í erindinu er fjallað um framúrstefnuleikhópinn Grímu og áhrif hans á íslenskt leikhúslíf. Leikhópurinn var stofnaður af ungu menntafólki sem hafði stundað nám í Evrópu á eftirstríðsárunum. Þau höfðu kynnt sér hræringar sem áttu sér stað í evrópsku leiklistarlífi en þessar breytingar höfðu ekki náð til Íslands nema í takmörkuðum mæli. Gríma spratt upp úr umhverfi þar sem sterk undiralda ríkti. Þessi undiralda krafðist breytinga. Leikhópurinn var starfræktur í tæp tíu ár, á árunum 1961–1970 og tók til sýninga 22 leikverk af ýmsu tagi – bæði íslensk og erlend framúrstefnuleikrit. Í fyrirlestrinum verður fjallað sérstaklega um fyrstu uppsetningu hópsins sem var leikritið Læstar dyr eftir Jean-Paul Sartre. Rýnt verður í þýðingu Vigdísar Finnbogadóttur og Þuríðar Kvaran með sérstakri áherslu á menningarlega og hugmyndafræðilega aðlögun. Kannaður verður þáttur leikhópsins í að hleypa lífi í íslenska leikritagerð en strax á öðru ári tók hópurinn til sýninga frumsamin íslensk framúrstefnuverk.
Í þessu erindi verður fjallað um leikritaþýðingar Vigdísar Finnbogadóttur og tengsl hennar við framúrstefnuleikhús á Íslandi. Að loknu námi í frönsku og frönskum bókmenntum tók Vigdís virkan þátt í leikhúslífinu í Reykjavík áður en hún tók við forsetaembættinu. Hún þýddi að minnsta kosti tíu leikrit, þar af sex úr frönsku, og var fyrsta þýðing hennar gerð fyrir framúrstefnuleikhópinn Grímu árið 1961. Farið verður yfir verkefnaval Vigdísar á þessu sviði, sem endurspeglar nýja strauma í íslensku leikhúslífi, og áhersla verður lögð á nálgun hennar á þeim textum sem hún sneri á íslenskt mál. Hvað vildi hún draga fram og varðveita úr þeim erlendu menningarheimum sem hún þurfti að opna fyrir íslenskum áhorfendum? Hvernig nálgaðist hún textana?
Tekin verða nokkur dæmi úr þýðingum Vigdísar, til dæmis úr gamanleiknum Fló á skinni eftir Georges Feydeau, sem Leikfélag Reykjavíkur sýndi við miklar vinsældir, en einnig úr framúrstefnuverkum eftir Jean-Paul Sartre, Jean Genet og Jean Tardieu. Almennt má segja að Vigdís hafi nálgast þessa ólíku texta á svipaðan hátt: Hún er trú textunum í þeirri merkingu að hún aðlagar þá ekki að íslenskum veruleika og jafnframt leitast hún við að halda í „léttleika“ frummálsins.
Fjallað verður um framúrstefnuleikritið Vinnukonurnar (fr. Les Bonnes) eftir Jean Genet í þýðingu Vigdísar Finnbogadóttur, sem var fjórða verkefni leikhópsins Grímu (1963). Leikritið fjallar um tvær systur sem starfa á sama heimili sem vinnukonur og ráðgera að byrla húsmóður sinni eitur, en þegar þau áform fara út um þúfur, fremja þær symbólískt morð í leik sem verður annarri að aldurtila og steypir hinni í glötun. Leikritið fjallar um kúgun stétta og hefur einnig verið beitt í ádeilu á vald í tengslum við kyngervi, sökum markvissrar og frumlegrar notkunar leikritaskáldsins á búningum og tengslum þeirra við leikmynd. Þá hefur leikritinu stundum verið steypt saman við fyrsta verk höfundar, Návígi (fr. Haute surveillance), þar sem samkynhneigð og læsi bætast við sem breytur í félagslegri mismunun. Vinnukonurnar og aðlaganair á þeim hafa því verið vettvangur til að fjalla um samtvinnun á pólitískri og félagslegri kúgun (stétt, kynvitund, menntun). Samspil textans og fyrirmæla höfundar um túlkun og leikmynd draga fram meginþemu leikritsins í harmleik hinna smánuðu en einnig hugmyndina um hið afstæða frelsi sem felst í leiknum. Fjallað verður um frumuppfærslu verksins í París árið 1947, uppsetningu leikhópsins Grímu á leikritinu árið 1963 og framhaldslíf þess í íslenskum leikgerðum og aðlögunum, allt til árisins 2011.